Velkomin á Ljósanótt!

Ljósanótt í Reykjanesbæ, bjartasta fjölskyldu- og menningarhátíð landsins, verður haldin í 15. sinn dagana 4. – 7. september. Að vísu, eins og undanfarin ár, taka aðstandendur hátíðartónleikanna Með blik í auga, forskot á sæluna og telja inn í Ljósanóttina með frumsýningu á Keflavík og Kanaútvarpið, í Andrews leikhúsinu á Ásbrú, miðvikudagskvöldið kl. 20.00 og skyldi enginn láta þá skemmtun láta framhjá sér fara. Tvennir tónleikar verða svo á sunnudaginn fyrir þá sem ekki komast á frumsýninguna. 

Yfir 300 manns taka þátt í tónlistar- og myndlistarviðburðum

Aðalsmerki Ljósanætur hefur ávallt verið áherslan á listir og menningu. Mikill metnaður er lagður í tónlistardagskrá, enda vel við hæfi í Bítlabænum, og fjölbreyttar myndlistarsýningar teygja sig í gegnum allan miðbæinn með ríkulegri þátttöku bæjarbúa. Í ár  standa um 120 manns fyrir myndlistarsýningum á 30 mismunandi stöðum og um 170 taka þátt í tónlistarviðburðum á 25 ólíkum stöðum. Að auki er boðið upp á allt það sem prýðir góða bæjarhátíð, sölutjöld, leiktæki, íþróttaviðburði og alls kyns uppákomur um allan bæ fyrir alla fjölskylduna.

Allt þetta hefðbundna.....

Tónninn er sleginn á fimmtudagsmorgni með tilkomumikilli setningarhátíð þar sem 2000 grunn- og leikskólabörn koma saman og sleppa til himins marglitum blöðrum og fagna með þeim hætti fjölbreytileikanum í samfélaginu. Að kvöldi fimmtudags breytist bærinn í stóra opnunarhátíð þegar myndlistarsýningarnar opna hver á fætur annarri með tilheyrandi mannamótum. Á föstudegi er hátíðargestum boðið í ekta íslenska kjötsúpu og Bryggjuball er haldið á smábátahöfninni. Þar koma fram Bjartmar og Bergrisarnir, Klassart og Stebbi og Eyfi. Dagskrá laugardags er þéttskipuð og hefst með Árgangagöngu þar sem árgangarnir sameinast í risastórri skrúðgöngu sem endar á hátíðarsvæðinu þar sem við tekur stanslaus dagskrá fram á kvöld. Hápunkti ná hátíðarhöldin með stórtónleikum á útisviði með úrvali tónlistarfólks og björtustu flugeldasýningu landsins. Fram koma hljómsveitirnar Pollapönk, Valdimar, Hjaltalín, AmabAdamA og Björgvin Halldórsson. Hátíðinni lýkur á sunnudegi, sem gjarnan er nýttur til að skoða allar þær sýningar og viðburði sem ekki hefur tekist að komast yfir þrjá fyrri dagana.

og meira til....

Meðal nýjunga á þessari Ljósanótt eru tónleikar í glænýju og glæsilegu Rokksafni Íslands í Hljómahöll. Þá verður kveikt á Stefnumótastaurnum, sem er ljósastaurinn sem unga stúlkan hallaði sér upp að í lagi Magnúsar Kjartanssonar, Skólaball. Loks verður Fjölskyldusetur Reykjanesbæjar opnað, en það er einstakt á landsvísu, og er ætlað að skapa umgjörð fyrir fjölskyldur í bænum til að sækja sér jákvæða þekkingu og fræðslu af ýmsu tagi.

Glænýr Ljósanæturvefur

Dagskrá Ljósanætur má skoða í heild sinni á glænýjum vef, ljosanott.is, sem hannaður var af vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos sem einmitt á aðsetur í Reykjanesbæ.

Velkomin á Ljósanótt