Verðlaun veitt fyrir BAUN

Hér má sjá Kjartan Ara, Samúel Þór, Júlíönu Freyju, Paraschiv Mathías og Stefaníu Unu sem voru dreg…
Hér má sjá Kjartan Ara, Samúel Þór, Júlíönu Freyju, Paraschiv Mathías og Stefaníu Unu sem voru dregin úr BAUNabréfapottinum ásamt Höllu Karen Guðjónsdóttur verkefnastjóra BAUNar, Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúa og Gísla Hlyni Jóhannssyni verslunarstjóra Húsasmiðjunnar sem studdi við verkefnið. Á myndina vantar Rafal Mateus sem einnig fékk verðlaun.

Gleðin var við völd þegar heppnir krakkar og ungmenni tóku við þátttökuverðlaunum fyrir þátttöku sína í BAUN, barna- og ungmennahátíð á dögunum.
Dregið var úr stórum potti BAUNabréfa sem skilað hafði verið inn og hlutu tvö heppin börn stór trampólín frá Húsasmiðjunni og önnur fjögur hrepptu gjafabréf fyrir ís fyrir fjölskylduna. Verðlaunaafhendingin fór fram í Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem stutt hefur dyggilega við verkefnið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir sitt framlag.

BAUN+ var nýtt verkefni á hátíðinni, sniðið að ungmennum í 8.-10. bekk en um var að ræða QR kóða leiðangur þar sem þátttakendur gátu leyst fjölbreytt verkefni og sent inn svör á rafrænan hátt. Heppinn þátttakandi hlaut glæsilegt Elvita partýbox og aðrir tveir hlutu Sound Core Boom 2 ferðahátalara frá Heimilistækjum/ Tölvulistanum í Reykjanesbæ og eru þeim færðar sérstakar þakkir fyrir sitt framlag til hátíðarinnar.

Þá voru einnig þrír heppnir þátttakendur sem unnu myndavélar í afmælisgetraunaleik HS Orku sem settur var upp í tilefni af 50 ára afmælissýningunni Drifkraftur framfara í Duus safnahúsum.

Gríðargóð þátttaka
Þátttakan í BAUN sem fram fór dagana 2. – 11. maí var einstaklega góð og bærinn iðaði af lífi þar sem börn og fjölskyldur fóru um, leystu ýmsar þrautir og tóku þátt í smiðjum og fjölbreyttum viðburðum. Sem dæmi um þátttökuna má nefna að um 4.300 manns lögðu leið sína í Duus safnahús á meðan á hátíðinni stóð. Tugir viðburða voru á dagskránni og var met þátttaka í þeim flestum. Þá var virkilega skemmtilegt að sjá hvernig félög, fyrirtæki og stofnanir lögðu sig fram við að tengjast hátíðinni og má t.d. nefna samfélagslögregluna í því samhengi sem nýtti hvert tækifæri til jákvæðra samskipta við íbúa.

Markmiðin með hátíðinni eru m.a. þau að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og jafnframt að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Af mikilli þátttöku í hátíðinni má draga þá ályktun að það hafi tekist og að óteljandi tækifæri séu fyrir stofnanir og fyrirtæki að bjóða upp á dagskrá fyrir börn og fjölskyldur. Eftirspurnin er svo sannarlega til staðar.

Takk fyrir að taka þátt í BAUN! Við hlökkum ótrúlega mikið til næstu BAUNar 30. apríl – 10. maí 2026.


Hér má sjá heppna þátttakendur í BAUN+ þau Hörpu Guðrúnu og Aron Inga ásamt Höllu Karen Guðjónsdóttur verkefnastjóra BAUNar, Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúa og Hafsteini Þóri Haraldssyni verslunarstjóra Heimilistækja/Tölvulistans sem studdi við verkefnið. 


Hér má sjá Ísak Auðunn taka við sínum verðlaunum.