Vestnorden í Reykjanesbæ

Í dag hefst  ferðakaupstefnan Vestnorden í Reykjanesbæ. Sýningarbásar hafa verið settir upp í Hljómahöllinn þar sem haldnir eru stuttir viðskiptafundir. Þá er erlendum kaupendum ferðaþjónustu boðið í kynningarferðir um Reykjanesið og Reykjanesbæ. 

Á ferðakaupstefnunni verða samankomin öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á landinu til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum sem sækja kaupstefnuna. Reiknað er með yfir 440 þátttakendum. Sem hluti af Reykjanes UNESCO Geopark, býður Reykjanesbær upp á fjölbreytta upplifun og afþreyingu hvort heldur sem er í gegnum söfn og menningu eða þá ægifögru náttúru sem umlykur bæinn. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili Vestnorden þegar hún er haldin hér á landi, en hún verður að þessu sinni haldin í góðu samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness, Reykjanesbæ og aðra hagsmunaaðila, enda um stóran viðburð að ræða.

Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála, standa að Vestnorden. Löndin þrjú skipta með sér umsjón með ferðakaupstefnunni en hún er haldin annað hvert ár á Íslandi. Um er að ræða stærsta viðburðinn sem haldinn er í ferðaþjónustu á Íslandi.