Viðurkenning Jafnvægisvogarinnar

Reykjanesbær hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), fyrir árangur í jafnréttismálum.

Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar, sem bar yfirskriftina „Jafnrétti er ákvörðun“, fór fram við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands þar sem fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög voru heiðruð fyrir að ná markmiði verkefnisins um jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórn eða efsta lagi stjórnunar.

Alls hlutu 128 þátttakendur viðurkenningu að þessu sinni, 90 fyrirtæki, 22 opinberir aðilar og 16 sveitarfélög, þar á meðal Reykjanesbær. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að stuðla að 40/60 kynjahlutfalli í æðstu stjórnunarstöðum og endurspeglar árangurinn skýr markmið bæjarins um jafnrétti og fjölbreytileika!