Vill kanna hug bæjarbúa um aðkomu sveitarfélagsins að HSS og heilsugæslunni

Bæjarhlið Reykjanesbæjar.
Bæjarhlið Reykjanesbæjar.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt að viðhafa íbúakönnun um hug bæjarbúa varðandi aðkomu bæjarins að HSS og heilsugæslunni.
Bæjarstjórnin vill í auknum mæli koma að stjórnun og stefnumótun HSS og heilsugæslunnar með það að leiðarljósi að bæta þjónustuna. 

„Það er orðið tímabært að sveitarfélagið komi að þessu máli í stað þess að
ríkið sé eitt með það. Þetta mál brennur á flestum íbúum“ segir Árni
Sigfússon bæjarstjóri. „Íbúar kannast við góða þjónustu
heilbrigðisstarfsfólks þegar hún er veitt, en fyrirkomulag hefur ekki verið
íbúum í hag. Ýmis þjónusta hefur verið aflögð eins og menn þekkja með
skurðstofurnar og langur biðtími í heilsugæslunni veldur því að margir
íbúar gefast upp og leggja á Reykjanesbrautina til að sækja þjónustu inn á
höfuðborgarsvæðið“.

„Við teljum að nærsamfélagið eigi að hafa afgerandi áhrif á þessa þjónustu
og að hún geti orðið mun betri við það“ segir Árni.

Í tillögunni kemur fram að könnunin fari fram samhliða
sveitarstjórnarkosningunum. Árni segir að til greina komi að
könnunin verði rafræn sem þýddi að allir hefðu val um að svara rafrænt þar
sem þeim hentaði eða gætu nýtt sér að svara rafrænt þegar þeir kæmu á
kjörstað. Sú útfærsla yrði skoðuð nánar.

„Við væntum þess að niðurstaðan gefi nýrri bæjarstjórn skýr skilaboð um
hvort ganga skuli til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið og á hvaða nótum
áherslur skuli vera“ sagði Árni.