Úttekt á jafnlaunakerfinu

Ráðhús Reykjanesbæjar
Ráðhús Reykjanesbæjar

Áframhaldandi vottun jafnlaunakerfis staðfest: Kynbundinn launamunur ekki til staðar hjá Reykjanesbæ.

 Nú á dögunum fór Reykjanesbær í gegnum viðhaldsvottun hjá BSI á Íslandi vegna jafnlaunakerfis og mælir úttektaraðili með áframhaldandi vottun jafnlaunakerfis sveitarfélagsins. Fyrirtækið BSI á Íslandi er faggild skoðunarstofa og sáu þeir um úttekt á jafnlaunakerfinu.

Frumúttekt var gerð árið 2019 og gildir til janúar 2023 og mun áframhaldandi vottun sömuleiðis gilda í 3 ár til viðbótar. Jafnlaunavottun er byggð á staðlinum ÍST 85:2012 og meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Þá er jafnlaunavottun einnig ætlað að staðfesta það að málefnaleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við launaákvarðanir og að laun séu ákveðin á sama hátt óháð kyni. Staðallinn tryggir ennfremur að á vinnustaðnum séu við lýði fagleg vinnubrögð sem koma í veg fyrir mismunun af öllum toga.

Niðurstöður launagreininingar leiddu í ljós að:

  • Kyn hefur ekki marktæk áhrif á laun þegar tekið hefur tilltil til starfa, ábyrgðarstigs, menntunar -og símenntunarálags og því er hægt að segja að ekki greinist marktækur kynbundinn launamunur hjá Reykjanesbæ.

Úttektin staðfesti einnig að jafnlaunakerfi Reykjanesbæjar hefur verið í stöðugri þróun, að það hafi verið rýnt reglulega og að það falli undir öll þau skilyrði sem til þarf að standast jafnlaunaúttekt.

Niðurstaða úttektarinnar hvetur stjórnendur Reykjanesbæjar til að halda áfram þeirri vegferð að stuðla að jafnrétti í störfum innan sveitarfélagsins.

Reykjanesbær 9. desember 2022