Áfram heldur ævintýrið í Aðventugarðinum

Áfram heldur ævintýrið í Aðventugarðinum

Mikil gleði ríkti í Aðventugarðinum um liðna helgi sem var opnunarhelgi garðsins. Ljósin voru tendruð á jólatré garðsins að lokinni Aðventugöngu og við tók fjölbreytt dagskrá helgarinnar í blíðskaparveðri. Fyrsti snjórinn féll á sunnudegi og jók heldur betur á töfra fallega Aðventugarðsins.

Blíðskaparveðurspá er fyrir komandi helgi sem er heppilegt enda margt á boðstólum í Aðventugarðinum. Von er á jólasveinum, snjóprinsessu og fjallamanni og sjálfri Grýlu. Kósýbandið flytur ljúfa tóna, jólakór Team Danskompaní tekur lagið, lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar blæs inn jólin, við fáum atriði úr Jólasögu Leikfélags Keflavíkur sem nú er á fjölunum og síðast en ekki síst mun Sönghópur Suðurnesja flytja jólalög undir stjórn nýkrýnds menningarverðlaunahafa Reykjanesbæjar, Magnúsar Kjartanssonar. Heita kakóið og sykurpúðarnir verða á sínum stað, boðið verður upp á ratleik í garðinum og hægt verður að gera góð kaup í jólakofunum. Þá er um að gera að kóróna upplifunina með því að svífa um Aðventusvellið á skautum.

Hér er dagskrá helgarinnar.

 Dagskrá helgarinnar 9-10. des

Leikskólalundur

Enginn má láta fram hjá sér fara sérstakan lund í skrúðgarðinum sem leikskólabörn bæjarins hafa skreytt sérdeilis fallega líkt og fyrri ár. Þegar gengið er inn í skrúðgarðinn frá torginu er lundinn að finna á hægri hönd. Eru bæjarbúar hvattir til að kíkja í fallega leikskólalundinn en það er gott til þess að vita að okkar yngstu íbúar eru þegar farnir að leggja gott til í þetta skemmtilega verkefni sem Aðventugarðurinn er.

Leitin á jólahúsinu

Íbúar í Reykjanesbæ eru margir hverjir sannkölluð jólabörn og leggja mikinn metnað í jólaskreytingar utandyra. Það er líka einstaklega gaman að taka rúnt um bæinn og skoða þessar fallegu skreytingar. Þar sem bærinn okkar stækkar stöðugt geta glæsilegar jólaskreytingarnar leynst víða og því finnst okkur tilvalið að smella í laufléttan jólaleik þar sem íbúar geta komið með tillögur að jólahúsi Reykjanesbæjar. Húsasmiðjan í Reykjanesbæ ætlar að styðja við bakið á þessu uppátæki með gjafabréfi til þess húss sem verður hlutskarpast í leiknum. Það eina sem þarf að gera er að mella á hnappinn hér að neðan eða fara í fréttir á vefsíðu Reykjanesbæjar, og skrá inn heimilisfang þess húss sem er tilnefnt og ekki er verra að senda eina mynd með.

Jólahús Reykjanæsbæjar

Hlökkum til að hitta ykkur í Aðventugarðinum!