Sibba að kenna krakkajóga
Sibba að kenna krakkajóga

Í tilefni af heilsu- og forvarnarviku í Reykjanesbæ bauð Bókasafn Reykjanesbæjar upp á krakkajóga með Sibbu laugardaginn 10. október síðastliðinn í streymi á Facebook síðu safnsins.

Viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum en tæplega 900 hafa horft á myndbandið síðan á laugardagsmorguninn. Myndbandið verður aðgengilegt fyrir unga sem aldna jógaiðkendur á  Facebook síðu Bókasafns Reykjanesbæjar til og með laugardeginum 16. október.

Sigurbjörg Gunnarsdóttir, eða Sibba eins og hún er oftast kölluð er leikskólakennari og jógaleiðbeinandi. Hún kennir jóga í leikskólanum Gimli sem hún starfar á og hefur komið nokkru sinnum og kennt krakkajóga í Bókasafninu, alltaf við frábærar undirtektir.

 Starfsfólk Bókasafnsins hvetur alla til að taka frá tíma og liðka aðeins huga og líkama með yngstu kynslóðinni.