Skrifað undir samning vegna byggingu fyrsta áfanga Stapaskóla

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eykta…
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar undirrituðu samninginn.

Reykjanesbær og Eykt ehf. undirrituðu nú í hádeginu samning um byggingu  fyrsta áfanga Stapaskóla. Framkvæmdir eru  hafnar en gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tilbúinn haustið 2020. Börn á yngri skólastigum munu þá hefja nám við Stapaskóla.

Undirbúningur við nýjan skóla í Dalshverfi hófst árið 2016 með vinnu undirbúningshóps sem skilaði skýrslu í júní 2016. Niðurstaða hópsins var sú að byggður yrði heildstæður skóli, leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, frístundaskóli og félagsmiðstöð. Skólinn, sem staðsettur er í austasta hluta bæjarins, á jafnframt að geta þjónað grenndarsamfélaginu sem einskonar menningarmiðstöð. Fullbúinn verður hann rúmlega 10.000 m² að stærð.

Farið var í útboð um hönnun nýja skólans og varð samkeppnistillaga Arkís arkitekta fyrir valinu. Skólinn á að bera þess merki að horft sé til framtíðar um leið og kröfum samtímans er mætt. Megin einkenni skólans verður sveigjanleiki, í kennsluháttum, í nýtingu rýmis, í skipulagi vinnudags og skilum á milli skólastiga.

Með því að smella á þennan tengil opnast samkeppnistilaga Akrís

Efnt var til samkeppni um nafn á nýja skólann haustið 2017 og varð Stapaskóli fyrir valinu. Á lóð skólans er nú rekið útibú frá Akurskóla í bráðabirgðahúsnæði. Áætlað er að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun árið 2020. Vinna við þann áfanga er nú hafin.

Í janúar 2019 verður haldinn kynningarfundur um nýja skólann, þar sem hönnun skólans verður sýnd, staðan tekin og farið yfir næstu áfanga.

Hér má sjá Kjartan Má Kjartansson fara yfir skólasögu Reykjanesbæjar í stórum dráttum, en undirritunin fór fram í elsta skólahúsi Reykjanesbæjar við Skólaveg 1, Gamla barnaskólanum