Takmörkun á skólastarfi vegna Covid19

Mynd fengin af dv.is
Mynd fengin af dv.is

Allir leik- og grunnskólar í Reykjanesbæ eru búnir að setja upp skipulag út frá tilmælum frá Almannavörnum, það er að tryggja að börn séu í fámennum námshópum og að þau blandist ekki milli hópa. Eins hefur verið útbúið skipulag vegna þrifa eða sótthreinsunar í skólabyggingum eftir hvern dag.

Þó að fyrirkomulagið sé líkt í leikskólunum tíu annars vegar og grunnskólunum sjö hins vegar, þá getur verið einhver breytileiki milli skóla með tilliti til mannauðs og rýmis. Foreldrar hafa allir fengið upplýsingar frá leik- og grunnskólunum sínum um skipulag náms og kennslu næstu daga.  Það skipulag verður endurmetið í ljósi reynslunnar og eru foreldrar beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum sem koma frá skólunum. 

Nokkur atriði úr skipulagi grunnskólanna:

  • Nemendur í 1. – 6./7. bekk eru annan hvern dag í skólanum.
  • Nemendur í 7./8. bekk – 10. bekk sinna sínu námi heima með aðstoð kennara í gegnum tæknina.
  • Nemendur á unglingastigi fá námsefni og leiðbeiningar frá kennurum og umsjónarkennarar koma til með að vera í persónulegum samskiptum við nemendur sína eins og kostur er.
  • Skólunum er skipt upp í sóttvarnarrými.
  • Reynt er að skipuleggja þannig að systkini komi í skólann sömu daga.
  • Gestakomur í skólann eru óheimilar og foreldrar eða aðrir gestir koma ekki inn í bygginguna.
  • Valgreinar falla niður.  

Nokkur atriði úr skipulagi leikskólanna:

  • Helmingur barna verður samtímis í leikskólanum og systkini fylgjast að.
  • Opnunartími verður frá 7:30/7:45 og lokunartími 15:00/15:15.
  • Hvert barn mætir annan hvern dag eða 2 daga í röð eina vikuna og 3 aðra.
  • Aðgengi foreldra inn í leikskólanum verður mjög takmarkað.
  • Börn eiga ekki að koma með leikföng að heiman inn í leikskólann.
  • Finni foreldri fyrir flensueinkennum er það beðið um að koma ekki inn í leikskólann.
  • Hafi börn flensueinkenni svo sem kvef eru foreldrar beðnir um að halda þeim heima.
  • Mjög mikilvægt er að allir leggi sig fram um að halda ró, veita öryggi og efla vellíðan.

Tónlistarskólinn

Starf Tónlistarskólans mun einnig taka miklum breytingum næstu daga og vikur. Allar hljómsveita- og hópæfingar og tónfræðitímar falla niður. Eins falla niður tónleikar sem voru á dagsskrá hjá skólanum.

Hljóðafæra- og söngtímar fara eingöngu fram í Tónlistarskólanum í Hljómahöll og fara næstu dagar í það að endurskipuleggja stundaskrá allra nemenda. Kennarar munu vera í góðu sambandi við sína nemendur og forráðamenn.