Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar samþykkt 3. desember

Frá fallegum vetrardegi í Reykjanesbæ.
Frá fallegum vetrardegi í Reykjanesbæ.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2020 til og með 2023 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 3. desember sl. þegar fram fór síðari umræða um áætlunina. Á næstu tveimur árum verður unnið samkvæmt 11 markmiðum og verkefnum sem koma fram í nýsamþykktri stefnumótun Reykjanesbæjar til ársins 2030. Gert er ráð fyrir 450 milljónum í framkvæmdir á árinu 2020, en leitað hefur verið heimildar til eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga um hækkun um 250 milljónir. Erindið verður tekið fyrir á fundi nefndarinnar í desember.

Í fjárhagsáætlun eru heildartekjur og -útgjöld áætluð út frá fyrirfram gefnum forsendum og gildandi aðlögunaráætlun. Helstu forsendur eru íbúaþróun, launa- og neysluvísitölur. Í áætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,36% í 0,32% og atvinnuhúsnæði úr 1,65% í 1,60%. Þá er gert ráð fyrir að holræsagjald lækki á íbúðarhúsnæði úr 0,15% í 0,10% og á atvinnuhúsnæði úr 0,35% í 0,30%. Útgjöld hvers sviðs eru áætluð út frá fyrri reynslu en stærstu lögboðnu verkefnin eru fræðslumál, velferðarmál og umhverfis- og skipulagsmál. Af valkvæðum verkefnum, sem ekki eru lögboðin, má nefna íþrótta- og tómstundastarf utan skólakerfisins, leikskóla, almenningssamgöngur, tónlistarskóla, markaðs- og menningarmál.

Hækkun útgjalda á milli ára eru áætluð um 4% en gert er ráð fyrir verulegri aukningu til fræðslumála eða um 8%, til að mæta mikilli fjölgun íbúa, ásamt því að fyrsti áfangi Stapaskóla verður tekinn í notkun haustið 2020. Útgjöld til fræðslumála nema rúmum helmingi af tekjum sveitarsjóðs.

Helstu fjárfestingar árið 2020 verða:

  • Vatnaveröld, endurbætur útisvæðis, kr. 200 milljónir
  • Körfu- og sparkvöllur á Ásbrú, kr. 30 milljónir 
  • Strandleið, lagfæringar, kr. 25 milljónir
  • Seltjörn, áframhaldandi uppbygging, kr. 25 milljónir
  • Njarðvíkurskógar, kr. 25 milljónir
  • Þá er ráðgert að koma gervigrasvelli vestan Reykjaneshallar ef heimild fæst frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga 
  • Áætlaðar fjárfestingar vegna Stapaskóla nema um kr. 2.000 milljónir

Hækkun hvatagreiðsla og skilvirkara leiðarkerfi strætó meðal verkefna

Í nýsamþykktri stefnu Reykjanesbæjar 2020-2030 eru útlituð 11 markmið og verkefni sem unnið verður útfrá á næstu tveimur árum:

  1. Bæta almenningssamgöngur með skilvirkara leiðarkerfi og aukinni tíðni. Kerfið nýtist fyrir íbúa í leik og starfi. Sérstaklega verði horft til þess að kerfið nýtist ungu fólki til að efla þátttöku barna í íþróttum og auka vellíðan þeirra.
  2. Hvatagreiðslur hækki og verði sambærilegar og hjá öðrum stærri sveitarfélögum landsins, þannig verði hvatt til aukinnar þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi barna.
  3. Samþætta skólastarf barna í 1.- 4. bekk við íþróttir og tómstundir til að auðvelda börnum og foreldrum lífið. Börnin ljúki almennt skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir kl. 17.00 á daginn.
  4. Áfram verður unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðri samvinnu við íþróttafélög.
  5. Opna ungbarnadeildir frá 18 mánaða aldri í a.m.k. tveimur leikskólum fyrir haustið 2021.
  6. Styrkja fjölþætta heilsueflingu 65+ um heilsueflingu eldri borgara enn frekar til að fleiri íbúar taki þátt.
  7. Uppbygging leiksvæða, hreystivalla, grænna svæða og göngustíga til að auka aðgengi íbúa að aðstöðu til útiveru.
  8. Lækkun fasteignaskatta til þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á starfsumhverfi sem stenst allan samanburð.
  9. Auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
  10. Hvatt verði til virkra samskipta milli ólíkra hópa m.a. með því að halda þjóðhátíðardag Pólverja hátíðlegan.
  11. Öll málaleitan íbúa sem má leysa í fyrstu snertingu verði leyst í fyrstu snertingu með öflugri ferlum og aukinni rafrænni þjónustu.

Helstu lykiltölur í samantekt A og B hluta fyrir árið 2020

  • Tekjur verði um 24,4 ma.kr.
  • Gjöld verði um 19,5 ma.kr.
  • Framlegði verði um 4,8 ma.kr.
  • Afskriftir verði um 1,8 ma.kr.
  • Niðurstaða án fjármagnsliða verði rétt rúmir 3 ma.kr.
  • Fjármagnsgjöld verði um 1,6 ma.kr.
  • Rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði verði rúmir 1,4 ma.kr.
  • Hlutdeild minnihluta í afkomu er áætluð rétt tæpar 400 millj.kr
  • Tekjuskattur er áætlaður tæpar 150 millj.kr.
  • Áætluð rekstrarniðurstaða samstæðu eru því um 909 millj.kr.
  • Heildareignir samstæðu eru áætlaðar rétt um 70 ma.kr. í lok árs 2020.
  • Eigið fé samstæðu eru áætlað um 26 ma.kr. í lok árs 2020.
  • Skuldir og skuldbindingar samstæðu eru áætlaðar um 44 ma.kr. í lok árs 2020.

Gert er ráð fyrir að skuldaviðmið í árslok 2019 verði 128,8% en 144% árið 2020 en fari aftur lækkandi árið 2021. Megin skýring hækkunarinnar er sú að handbæra fé sem bærinn á nú, og hefur heimild í reglugerð um útreikning skuldaviðmiðs til að draga frá skuldum, mun að mestu leyti fara í Stapaskóla.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2020-2023

Fundargerð bæjarstjórnar eftir fyrri umræðu um fjárhagsáætlun

Fundargerð bæjarstjórnar eftir seinni umræðu um fjárhagsáætlun